ÞARMAFLÓRAN - GEÐLÆKNINGAR FRAMTÍÐARINNAR?

Screenshot-2015-08-28-17.14.14 

 

FLEIRI bakteríur í þörmum en frumur í líkama
Rannsóknir sýna að líkami okkar samanstendur í raun af fleiri bakteríum en frumum. Þessar trilljónir baktería lifa flestar í meltingarveginum, langflestar í ristlinum. Þaðan hafa þær síðan margvísleg áhrif á heilsu okkar (1).

LANGVINNIR sjúkdómar út frá meltingarveginum
Meltingarvegurinn hefur mun stærra hlutverki að gegna en að melta fæðu og frásoga næringu. Ónæmiskerfi okkar er að mestu staðsett í meltingarveginum og auk þess er bólguviðbrögðum m.a. stjórnað út frá meltingarvegi (2). Rannsakendur beina sjónum sínum í æ meira mæli til sambands meltingarvegar/þarmaflóru og langvinnra sjúkdóma s.s. sjálfsofnæmis og taugasjúkdóma. Einnig hefur verið sýnt fram á að breytingar á þarmaflóru móður á meðgöngu geta haft áhrif heila fósturs og þroska (3).

HEILINN í þörmunum
Innsti lag þarma okkar hefur að geyma yfir 100 miljónir tauga og mynda flókið kerfi sem nefnist taugakerfi garna og iðra (enteric nervous system). Þetta sérhæfða taugakerfi á skipulögð samskipti við miðtaugakerfið okkar (heila og mænu) á flókinn hátt með hormónum og taugaboðefnum (4). Þessi samskipti fara í báðar áttir, bæði frá heila til þarma og frá þörmum til heila en ná einnig til innkirtlakerfis, ónæmiskerfis og úttaugakerfis (5,6).

Nýjust rannsóknir sýna fram á náin tengsl miðtaugakerfis við þarma og þarmaflóru og í raun er orðið erfitt að aðskilja starfssemi þeirra (7).

TILFINNINGAR spila stórt hlutverk í meltingarfærasjúkdómum
Það er vitað að tilfinningalegir og geðrænir þættir geta komið af stað einkennum í meltingarfærum. Þetta er þekkt í þeim tilfellum þegar búið er að útiloka líkamlegar orsakir en einkenni eru til staðar (8). Um 20 heilsufarsvandamál sem tengjast meltingarveginum eru þekkt, flest langvinn og erfitt að meðhöndla. Í dag er farið að horfa til þess að sálar- og félagsþroski getur haft lífeðlisfræðileg áhrif á þarmana ásamt því að hafa áhrif á einkenni og heilsufar okkar almennt (9).

GEÐHEILSA hefur með ástand meltingarfæra að gera
Streita spilar stórt hlutverk þegar horft er á geðheilsu og meltingarsjúkdóma. Rannsóknir sýna að tilfinningavinna skilar auknum árangri þegar kemur að meðhöndlun á meltingarfærasjúkdómum og þeirra einkennum (10).

Rannsóknir á dýrum hafa klárlega sýnt fram á hvernig hægt er að framkalla breytta hegðun s.s. kvíða og þunglyndi með röskun á þarmaflórunni. Nú er einnig búið að sýna fram á hið gagnstæða, þ.e. hvernig hægt er að byggja upp þarmaflóruna og hafa þannig jákvæð áhrif á geðheilsu (11). Rannsóknin var gerð í University of Oxford á 45 einstaklingum og sýndi hópurinn sem fékk probiotics (styrkir þarmaflóru) marktæka lækkun á streituhormónum, á meðan lyfleysuhópur sýndi engar breytingar. Einnig kom fram á sálfræðiprófum í tilfinningaúrvinnslu, að jákvæð athygli þessara sömu einstaklinga jókst meðan dró úr þeirri neikvæðu.

Rannsóknir benda til þess að depurð og þunglyndi megi flokka sem bólgusjúkdóm sem á upptök sín þörmunum, m.a. sökum lélegrar þarmaflóru.

Í kerfisbundnu yfirliti rannsókna (systematic review) komu fram áhugaverðar niðurstöður sem styrkja þessar tilgátur (12). Rannsóknin sýnir fram á hvernig röskun á þarmaflórunni hefur áhrif á ónæmiskerfið og taugakerfið og getur því leitt til geðsjúkdóma s.s. kvíða og þunglyndis (1314), geðhvarfasýki (1516) og geðklofa (171819). Rannsóknin er vönduð og yfirgripsmikil þar sem hún fylgir stöðluðum reglum (smella hér til að fræðast meira um slíkar rannsóknir).

MEÐHÖNDLUN geðsjúkdóma í samanburði við meðhöndlun meltingarsjúkdóma
Rannsóknir hafa nú sýnt fram á að bæði forvarnir og meðhöndlun á geðrænum og taugatengdum sjúkdómum ættu fyrst og fremst að beinast að ástandi meltingarvegar og þarmaflóru (111220), á meðan meðhöndlun á meltingarsjúkdómum er árangursrík með tilliti til sálfræðilegrar nálgunar (10).


ÞARMAFLÓRAN - STJÓRNAR HÚN LÍKAMSÞYNGD?

Screenshot-2015-08-24-15.10.32

 

ÞARMAFLÓRAN skiptir máli

Í dag er vitað að örverur í meltingarvegi mannsins (þarmaflóran) hafa áhrif á líkamsstarfsemina á ýmsan hátt. Sem dæmi, þá ver þarmaflóran okkur gegn óæskilegum örverum (1) og hefur margskonar áhrif á heila- og taugakerfið, þar með talið geðheilsu (2).

ÞARMAFLÓRAN og ofþyngd

Rannsóknir á dýrum hafa leitt í ljós að ójafnvægi í þramaflóru getur stuðlað að ofþyngd (34). Fjölgun á ákveðnum örverum, sem nefnast Firmicutes, hefur þau áhrif að mýs þyngjast hraðar en mýs sem hafa hærra hlutfall af öðrum örverum eins og Bacteroidetes (4). Firmicutes hafa þann eiginleika að ná meiri orku úr fæðunni en aðrar örverur og frásoga t.d. hærra hlutfall fitu en örverur eins og Bacteroidetes (56).

Þetta hefur verið rannsakað enn frekar á músum með enga þarmaflóru (germ-free mice). Þessar mýs eru með steríla/dauðhreinsaða görn og þeim síðan gefin þarmaflóra úr offeitum (obese) músum. Þessi aðgerð er framkvæmd með svokölluðum hægðaflutningi (fecal-transplant). Mýsnar verða offeitar án þess að fæði þeirra hafi verið breytt á nokkurn hátt (46).

Þessar niðurstöður gefa til kynna að fjöldi innbyrgðra hitaeininga hefur ekki allt um það að segja hvort við þyngjumst eða léttumst.

HITAEININGAR – skipta þær máli?

Fjöldi vandaðra rannsókna sýna okkur að fæði sem er ríkt af hvítum sykri og óhollri fitu hefur slæm áhrif á heilsu okkar á margan hátt (7, 89). Staðreyndin er sú að hið svokallaða vesturlanda-fæði (Western high-fat, sugary diet) eykur vöxt á óhagstæðum örverum eins í meltingarvegi mannsins. Það er mikilvægt að átta sig á að að tekur aðeins um einn sólahring að raska heilbrigðri flóru með slæmu/óhollu fæði (10).

Tilraunir á músum hafa einnig sýnt fram á árangur með því að gefa offeitum músum þarmaflóru úr grönnum einstaklingum (í þessu tilfelli mannfólki). Þannig ná mýsnar kjörþyngd á ný, án þess að fæði þeirra hafi verið breytt.

Með því að örva vöxt hagstæðra örvera í meltingarveginum er hægt að hafa áhrif á líkamsþyngd á markvissan hátt.

KERFISBUNDNAR rannsóknir á þarmaflóru og líkamsþyngd

Það eru til fjölmargar vandaðar kerfisbundar rannsóknir (hvað eru vandaðar/kerfisbundnar rannsóknir – smelltu hér) sem staðfesta þessar niðurstöður (11). Rannsóknir á of þungum einstaklingum gefa sömu niðurstöður og tilraunir á músum hvað varðar samsetningu á þarmaflóru og líkamsþyngd. Niðurstðurnar sýna fram á minni breidd í flóru þeirra sem eru of þungir sem síðan getur aukið líkur á alvarlegum og langvinnum sjúkdómum eins og sykursýki II og krabbameini (12).

En hvað er það sem getur helst raskað þessari mikilvægu þarmaflóru og þannig leitt til ofþyngdar og jafnvel alvarlegra sjúkdóma?

TREFJAR hafa áhrif

Í dag vitum við að trefjaríkar fæðutegundir (ávextir, grænmeti, hnetur, fræ, baunir og gróft korn) hafa jákvæð áhrif á heilsufar okkar almennt (79). Umfram það mikilvæga hlutverk hafa trefjar áhrif á þarmaflóruna með því að örva vöxt hagstæðra örvera eins og Bacterotidetes (10).

Þrátt fyrir þessa vitneskju er fæðið okkar (sérstaklega á vesturlöndum) sífellt að verða innihaldsríkara af óhollri fitu, hvítum sykri og hreinsuðu korni s.s. hvítu hveiti, á kostnað náttúrulegara trefja (8).

SÝKLALYF hafa líka áhrif

Í annan stað þarf að nefna ofnotkun á sýklalyfjum. Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á að ofnotkun sýklalyfja hamlar vöxt hagstæðra baktería í þörmum sem hefur t.d. áhrif á þroska ónæmiskerfis barna. Einnig getur ofnotkun sýklalyfja snemma á lífsleiðinni leitt til ofþyngdar og/eða margskonar sjúkdóma síðar á lífleiðinni (131415).

Sýnt hefur verið fram á að notkun á sýklalyfjum í búfénaði hefur jafnframt skaðleg áhrif á þarmaflóru mannsins og er stöðugt verið að gera rannsóknir á þessu sviði (16).

HVAÐ er til ráða?

Mikilvægast af öllu er að neyta fjölbreyttrar og hollrar fæðu sem styður vöxt hagstæðra örvera í meltingarveginum og má þar sérstaklega nefna trefjaríkar fæðutegundir og gerjaðar afurðir á borð við súrkál, lifandi jógúrtgerla, kefir, kombucha, miso og fl. Það er einnig mikilvægt að takmarka neyslu á unnum vörum og þá sér í lagi sykri og kornmeti ásamt því að leggja áherslu á villtar dýraafurðir þegar kemur að því að velja fisk, kjöt og egg.

Með því að næra hagstæðar örverur í meltingarvegi okkar getum við haft áhrif á líkamsþyngd á árangursríkari hátt en einungis að telja hitaeiningar.

 

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband