ÞARMAFLÓRAN - HEFUR GLÚTEN EITTHVAÐ AÐ SEGJA?
13.10.2015 | 21:20
ÞARMAFLÓRAN HEFUR GLÚTEN EITTHVAÐ AÐ SEGJA?
Þarmaflóran er samsett úr yfir 1000 tegundum örvera sem hafa mikilvægu hlutverki að gegna þegar kemur að heilsu mannsins. Þessar ríflega eitt þúsund tegundir örvera vega um eitt og hálft til tvö kíló í meðal manni og hefur fæðið okkar áhrif á hvernig þær þrífast og dafna.
GLÚTEN - ofnæmi og óþol
Glúten er samheiti fyrir prótín sem finnast í hveiti, byggi, rúg og mögulega höfrum (tengist framleiðsluferli hafra). Áætlað er að um 1% vesturlandabúa þjáist af glútenofnæmi. Algengt er að glútenofnæmi sé vangreint eða greint of seint, allt að 6-11 árum eftir að einkenni byrja að eiga sér stað. Einkenni geta verið margvísleg en uppþemba, niðurgangur og ýmis óþægindi út frá meltingarvegi eru algengust sem síðar leiða til næringarskorts, ef ekkert er að gert. Einkenni geta líka verið óbein eða ekki út frá meltingarvegi, eins og t.d. húðvandamál (1).
Glútenóþol er talið vera mun algengara en glútenofnæmi. Erfitt er að greina glútenóþol svo vel sé og þess vegna ekki einfalt að áætla hversu margir eru að kljást við glútenóþol í raun. Líkur eru á að 0.5 - 13% vesturlandabúa þjáist af glútenóþoli. Einkenni glútenóþols geta verið mjög margbreytileg og koma oft eftir neyslu á glútenríkum afurðum eins og hveiti (2).
GLÚTEN og melting
Magasýrur brjóta niður prótín, þ.m.t. glúten og briskirtillinn framleiðir ensím sem brýtur einnig niður glúten. Framleiðslugeta briskirtils veltur að hluta til á hve vel maginn stendur sig. Ef skortur er á magasýrum (margar ástæður geta valdið því) fara þessir prótínhlutar kornsins niður í þarmana og valda vandamálum s.s. ofvexti á óæskilegum örverum (3, 4). Ef magasýrur eru of háar hefur það letjandi áhrif á framleiðslu mikilvægra ensíma og gallvökva sem einnig leiðir til ofvaxtar á örverum í þörmum (5).
GLÚTEN og þarmaflóran
Glúten sem fer illa melt niður í þarmana getur valdið óþoli. Ástæðan felst m.a. í ofvexti á óæskilegum örverum (4). Sýnt hefur verið fram á að ákveðnar örverur geta aukið líkur á glútenofnæmi og því getur þetta orðið vítahringur óþols og ofnæmis. Candida albicans er dæmi um örveru sem getur fjölgað sér í þörmunum og þannig valdið óþægindum. C. albicans getur bundist ákveðnum prótínum í þörmum sem síðan getur leitt til ónæmisviðbragða (cross-reactivity) sem er alveg hliðstætt því sem gerist í glútenofnæmi. Þetta þýðir að viðkvæmur einstaklingur (erfðafræðilega móttækilegur) getur þróað glútenofnæmi út frá ofvexti á C.albicans (6).
GLÚTEN og sjúkdómar
Annarskonar áhrif glútens eru einnig þekkt. Þegar glúten kemur niður í smáþarmana eykur það framleiðslu á prótíni í þörmunum sem nefnist zonulin. Með framleiðslu á zonulini eykst gegndræpi þarma, þ.e. samskeyti frumna gliðna og hleypa prótínum út í blóðrásina. Hjá viðkvæmum einstaklingum getur þá glúten valdið óæskilegum áhrifum í líkamanum, s.s. bólgum í vefjum eða geðhrifum (7, 8).
Glútenóþol getur átt sér stað án þess að um einkenni út frá meltingarvegi sé að ræða og geta einkenni t.d. komið fram í taugakerfi. Glútenóþol hefur verið rannsakað í tengslum við ýmsa sjúkdóma s.s. Multible Sclerosis (MS) (9), einhverfu (ASD) (10) auk geðsjúkdóma.
GLÚTENLAUST eða ekki glútenlaust?
Þegar um glútenofnæmi er að ræða valda glútenprótínin sjálfsónæmisviðbrögum sem koma fram sem skemmdir í þramaveggjum einstaklingsins og verður þá að hætta neyslu á glúteni til frambúðar.
Glútenofnæmi fer ört vaxandi. Í Bandaríkjunum hefur tíðni þess aukist fimmfalt síðustu áratugi (11, 12), fjórfaldast í Bretlandi (13) og tvöfaldast í Finnlandi (14) svo dæmi séu tekin. Möguleg skýring er aukin notkun sýklalyfja ásamt vaxandi neyslu á unnu og næringarsnauðu fæði. Hvorutveggja hefur skaðleg áhrif á örveruflóru meltingarvegar.
Ef líkur eru á glútenofnæmi þarf að leita til læknis og fá úr því skorið. Þegar grunur á óþoli er fyrir hendi, er hægt að sleppa því að neyta glútenafurða í nokkrar vikur og kanna þannig hvort einkenni minnki eða hverfi. Engin þekkt skortseinkenni fylgja glútenlausu fæði ef fjölbreytni er fylgt í fæðuvali (15).
Þarmaflóran hefur mikið um það að segja hvaða áhrif fæði hefur á heilsu. Röskun á þessari mikilvægu örveruflóru getur ýtt undir sýkingar í líkamanum og aukið líkur á ofnæmum og óþolum hjá ákveðnum hóp af fólki.
Heilbrigð þarmaflóra getur komið í veg fyrir sýkingar, ofnæmi og óþol.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.