MELTINGARVEGURINN OG SJÁLFSÓNÆMISSJÚKDÓMAR

Konur eru líklegri til að greinast með sjálfsónæmissjúkdóm (75% þeirra sem greinast).  Sjálfsónæmi er ein af tíu algengustu ástæðum fyrir andláti kvenna og barna. 

SJÁLFSÓNÆMI og umhverfisþættir

Sjálfsónæmi fer ört vaxandi og eru þekktir yfir 80 sjálfsónæmissjúkdómar.  Ekki er vitað með vissu hvað veldur sjálfsónæmi.   Ákveðnir genaþættir, umhverfisþættir og mataræði eiga hlut að máli samkvæmt rannsóknum (1).  

Liðagigt, Crohn´s, MS og sykursýki I eru dæmi um sjálfsónæmissjúkdóma.  Nýgengi/tíðni þessara sjúkdóma fer vaxandi og hefur National Institute of Health (NIH) áætlað að um 23.5 miljónir Ameríkana þjáist af sjálfsónæmissjúkdómum (1,2). American Autoimmune Related Diseases Association (AARDA) áætlar um 50 miljónir manna séu haldnir sjálfsónæmi af einhverju tagi (3).

Rannsóknir hafa leitt í ljós að ákveðnir genaþættir, umhverfisþættir (þ.m.t. sýkingar) og röskun á örveruflóru þarmanna (dysbiosis) hafa áhrif á ónæmiskerfið og þar með þróun sjálfsónæmissjúkdóma (4,5).

MATARÆÐI og ónæmiskerfið

Síðustu 50 ár hefur fæðan þróast yfir í meira unnar matvörur og þar af leiðandi næringarsnauðari afurðir.  Notkun á skordýraeitri, tilbúnum áburði og erfðabreyttum tilbrigðum hefur aukist.  Í vinnsluferli matvæla er iðulega bætt við aukaefnum til að lengja geymslutíma, gefa “betra” bragð, útlit o.fl.  

Samhliða þessari þróun hefur tíðni sjálfsónæmissjúkdóma eins og liðagigtar, Crohn´s, MS og sykursýki I aukist, sérstaklega í iðnvæddum ríkjum (4,6,7).  Því má ætla að tengsl séu þarna á milli.  Faraldsfræðilegar rannsóknir hafa t.d. leitt í ljós að neysla á glúten afurðum getur aukið líkur á kvillum í görnum (8) og D vítamín skortur eykur líkur á sjálfsónæmi (9). 

ÓNÆMISKERFIÐ og meltingarvegurinn

Við erum með fjöldann allan af örverum í meltingarvegi, frá munni til endaþarms.  Þarmaveggir eru þaktir örverum og seigju eða slími (mucin) sem þjónar ákveðnu verndarhlutverki (10).  

Þekjuvefsfrumur þarmaveggjanna hafa það hlutverk að koma í veg fyrir bólguviðbrögð þar sem þær eiga í nánum samskiptum við ónæmiskerfi þarmanna ásamt þarmaflóru (11).  Á milli þessara frumna eru samskeyti sem geta opnast og lokast við ákveðnar aðstæður.  Sem dæmi má nefna getur aukin streita, ákveðnar bakteríur í meltingarvegi og glúten haft áhrif á þessa opnun og þannig aukið líkur á sjálfsónæmissjúkdómum hjá viðkvæmum einstaklingum (12,13,14,15). 

MELTINGARVEGURINN og heilsa

Lyfjanotkun (t.d. sýrubindandi lyf, sýklalyf, bólgueyðandi lyf), reykingar, óhóflega neyslu áfengis og tíðni klósettferða (hæðalosun) eru þættir sem hafa áhrif á þarmaflóruna (16,17, 18).  Þessir þættir geta raskað framleiðslu á mótefnavökum sem síðan eykur líkur á sjúkdómum í meltingarvegi (s.s. glútenóþoli og mjólkuróþoli) (13,19).  

Einstaklingar sem greindir eru með glútenóþol eru líklegri til að greinast með sykursýki I og skjaldkirtilsbólgur.  Samkvæmt rannsóknum mælast einstaklingar með glútenóþol og skjaldkirtilsbólgur iðulega með ákveðna  “vanvikni” í þarmaveggjum (20,21,22).  Ef mótefnavakar í þörmum frásogast út í líkamann (sem gerist þegar umrædd vanvirkni er til staðar) getur það valdið bólgum í líkama (23).

HEILSA og mataræði

Eitt af áhrifaríkustu verkfærum til að vinna með heilsu er fæðan.  Það mataræði sem sem við kjósum að neyta hefur áhrif á örveruflóru þarmanna. Hægt er að hafa áhrif á þarmaflóruna með því að gera breytingar á fæði.  Rannsóknir staðfesta að ef skipt er úr hollu grófmeti yfir í fæði sem inniheldur viðbættan sykur ásamt slæmri fitu verður mælanleg breyting á þarmaflóru á aðeins einum degi (24).

Röskun á þarmaflórunni getur leitt til sjúkdóma.   Til dæmis eykur áveðin örvera (segmented lamentous bacterium - SFB) framleiðsla á Th17 frumum í veggjum smáþarma.  Th17 frumur gegna ákveðnu hlutverki hvað varðar sjálfsónæmi (25).  Þannig má segja að þær geri viðkomandi einstakling mótækilegri fyrir sjálfsónæmi og langvarnandi bólgum í líkama.  Þar má t.d. nefna gigtarsjúkdóma og taugasjúkdóma (26,27).

Heilbrigð örveruflóra getur dregið úr sjúkdómseinkennum eða komið í veg fyrir sjúkdóma.  Örveran B.fragilis finnst í þörmum okkar.  Hún getur til dæmis varnað skemmdum á taugaslíðri eða komið í veg fyrir bólgur í meltingarvegi (28,29).  Ef þessi baktería kemst hinsvegar út í líkamann getur hún valdið sýkingum.  Heilbrigt yfirborð þarmaveggja er því mikilvægt.  

ÞARMAFLÓRAN skiptir máli

Ákveðnir þættir s.s. erfðafræði, umhverfi, sýkingar og örveruflóra þarmanna hafa áhrif á myndun sjálfsónæmis.  Þekking á samspili þessara þátta eykst stöðugt.  Rannsóknum, sem sýna hvernig þarmaflóran hefur áhrif á ónæmiserfið alveg frá fæðingu, fjölgar stöðugt. Þessi örveruflóra spilar einnig stórt hlutverk í sjálfsónæmi, innan sem utan meltingarvegar.  Enn er þó mörgum spurningum ósvarað í þessum efnum.  

Að koma í veg fyrir röskun á örveruflóru þarmanna (dysbiosis) er áhrifarík leið til að fyrirbyggja sjúkdóma.  Hollt mataræði, án öfga, er án efa mikilvægur þáttur ásamt reglulegri inntöku mjólkursýrugerla.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband